06. maí. 2014 06:42
Í síðustu viku gekk maður inn í matvöruverslunina Grundaval á Akranesi og safnaði allnokkru af vörum í körfu. Gekk síðan að afgreiðsluborðinu og bað um sígarettur. Þegar kom að því að borga sagði hann við afgreiðslustúlkuna: „Hringdu bara á lögguna” og gekk svo út. Nóttina eftir fór svo öryggiskerfi verslunarinnar í gang og þegar starfsfólk kom að sá það mann hlaupa út úr versluninni. Brotist hafði verið inn í verslunina en til þess að gera litlu stolið. Tjón var hins vegar talsvert, rúður höfðu verið brotnar og hurðir skemmdar, eins og sjá má á meðfylgjandi mynd. Lýsingar starfsfólks sem að kom um nóttina og afgreiðslustúlkunnar um daginn voru mjög svipaðar og undir morgun var maður handtekinn grunaður um að hafa verið að verki í bæði skiptin. Hann var færður til yfirheyrslu og játaði að hafa verið að verki um daginn en kannaðist ekkert við að hafa brotist inn. Hann var látinn laus að yfirheyrslum loknum en skömmu eftir að hann gekk út af lögreglustöðinni bárust nýjar upplýsingar sem leiddu til þess að hann var sóttur aftur og þá viðurkenndi hann einnig innbrotið.