Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Smáauglýsingar

3ja herb Íbúð á Bifröst

3ja herb íbúð,, 65,4 fm. til leigu á Bifröst Íbúðin getur verið laus mjög fljótlega Upplýsing...
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
31. desember. 2004 09:06

Ár vaxtar og mikilla væntinga

 

Ágætu Vestlendingar! 

 

Nú er árið 2004 að renna sitt skeið. Flestir íbúar okkar svæðis geta vafalaust verið sammála undirrituðum í þeirri skoðun að árið 2004 hafi einkennst af miklum vexti á sviði atvinnulífs og fremur jákvæðum væntingum almennings og fyrirtækja til framtíðarinnar. Nefna má nokkur jákvæð atriði líðandi árs sérstaklega. Stofnun Fjölbrautaskóla á Snæfellsnesi og farsælt start skólans gefur íbúum Snæfellsness jákvæðari væntingar til framtíðarinnar, ákvörðun um sameiningu hafna á Faxaflóasvæðinu felur í sér gríðarleg sóknarfæri, kraftur er í starfsemi háskólastofnana í Borgarfirði og heilbrigðisstofnunin á Akranesi fékk viðurkenningu fyrir rekstur ríkisstofnunar, vottun Green Globe 21 á sjálfbærri þróun umhverfis- og samfélagsmála á Snæfellsnesi með megináherslu á ferðaþjónustu, uppbyggingu íbúðarhúsnæðis víða á Vesturlandi, en mest þó á Akranesi, og gríðarlegar framkvæmdir hjá stórfyrirtækjum á Grundartanga. Auk þessara atriða má nefna vöxt í starfsemi einstakra fyrirtækja víða í landshlutanum sem eiga hvert um sig þátt í fjölgun atvinnutækifæra í sínum byggðarlögum. Öll þessi atriði stuðla að jákvæðri þróun byggðar og vaxtar landssvæðisins og gefa tilefni til bjartsýni.

 

 

Nokkur atriði sem undirstrika að íbúar landshlutans geta vænst áframhaldandi vaxtar svæðisins komu fram á árinu. Í skýrslu um áhrif Hvalfjarðarganganna á atvinnu- og búsetuskilyrði á Vesturlandi, sem kynnt var í október, kom fram að göngin hafa að langflestu leyti verið jákvæð bæði í hagræðilegu og félagsfræðilegu tilliti. Meðal annars hefur atvinnuöryggi aukist, matvöruverð hefur lækkað og ekki hvað síst hefur almenningur hér á landi orðið jákvæðari í garð Vesturlands. Afleiðing þess er t.a.m. gríðarlegur vöxtur í byggingu sumar- og heilsárshúsa, fasteigna- og jarðaverð hefur hækkað sem aldrei fyrr og fyrirtæki vilja koma sér fyrir hér á svæðinu. Segja má að Vesturland sé á ný orðið með fýsilegri stöðum til búsetu og gera má ráð fyrir að íbúum muni fjölga næstu árin af þeim sökum. Þó má segja að ákveðinn flöskuháls sé þess valdandi að jákvæðra áhrifa gæti ekki að hæsta marki. Sú staðreynd að einkaaðilar áttu frumkvæði að því á sínum tíma að farið var í gerð Hvalfjarðarganganna hefur verið þess valdandi að ráðamenn íslenska ríkisins nota það enn sem skálkaskjól til að koma í veg fyrir að ríkið yfirtaki skuldbindingar vegna þessarar framkvæmdar og felli niður gjaldtöku í göngin. Það eru nánast allir sammála því að yfirtaka ríkisins á göngunum væri í senn eðlileg og réttmæt aðgerð. Vestlendingar hafa þannig áfram að sameiginlegu baráttumáli að vinna á komandi ári.

 

Við sem hér búum eigum að vera stolt af okkar heimabyggð enda er gott að búa hvarvetna á Vesturlandi. Hér eru ágætir skólar, heilbrigðisstofnanir og segja má að hér séu afburða góðar samgöngur á nær öllum stöðum. Góðar samgöngur gera okkur um leið auðveldara að sækja afþreyingu, verslun og menningu af hvaða tagi sem er á fjarlægari staði en áður var raunhæft. Um leið má segja að minnki að sama skapi hið aldagamla mikilvægi gömlu og góðu ungmennafélaganna, kvenfélaganna eða annarra félagasamtaka ekki síður en kaupmannanna “á horninu” sem um áratuga- eða aldaskeið hafa þjónað okkur í súru og sætu en eru nú í ákveðinni varnarbaráttu. En við búum ekki eingöngu við batnandi vegasamgöngur. Netið, tækniundur nútímans, gerir okkur það nú kleift að við getum sótt afþreyingu, verslun, hverskyns upplýsingar og átt ýmis viðskipti um símalínur eða jafnvel með örbylgjum í gegnum gervihnetti, sama hvar við erum stödd. Við getum í dag jafnvel keypt heilu bílana með því einu að sitja fyrir framan tölvuna okkar, valið og greitt og fengið bílinn sendann frá Ameríku, á þann stað sem við viljum fá hann afhentan. Svona breytist margt á stuttum tíma en segja má að einmitt þessi atriði í bættum samgöngum geri það á nýjan leik í senn spennandi og fýsilegan kost að búa úti á landi – og valið þannig það besta úr. Við þurfum ekki endilega að vera búsett í mesta þéttbýli þessa lands til að geta notið þess eftirsóknarverðasta sem það svæði hefur upp á að bjóða. Við getum í dag valið um að búa þar sem best er að ala upp börnin okkar, næga atvinnu er að hafa og notið um leið þeirra fríðinda að geta sótt með litlum tilkostnaði eða fyrirhöfn menningu, afþreyingu eða verslun sem við veljum af höfuðborgarsvæðinu eða erlendis frá. Bættar samgöngur af öllu tagi styrkja þannig búsetuskilyrði okkar sem veljum að dvelja utan hörðustu hringiðu nútíma neysluþjóðfélagsins – en höfum samt alltaf valið ef við viljum breyta til á tillidögum.

 

Landsmenn hafa orðið varir við mikil þensluáhrif víða í þjóðlífinu. Endurspeglast þessi þensla hvað best í ævintýralegu gengi hlutabréfa í mörgum af stærstu fyrirtækjum landsins sem mörg hver sækja nú á erlenda grund í sókn sinni, enda íslenskur markaður lítill og takmörkunum settur sökum smæðar sinnar. Margir Íslendingar hafa hagnast verulega á þessum vexti fyrirtækja og til er orðinn þjóðfélagshópur sem vart kann aura sinna tal og ber að samgleðjast þessum hópi landsmanna. Um leið eykst hinsvegar bilið milli þeirra sem telja verður “ríka” og þeirra sem vart eiga í sig og á. Ráðamenn þjóðarinnar þurfa vissulega að halda vöku sinni til að styrkja hag hins almenna þjóðfélagsþegns sem býr við lægstu launakjörin í landinu og er jafnvel einvörðungu háður ákvörðunum fjárlagavaldsins um kaup og kjör. Hér má sérstaklega nefna sjúka, aldraða, öryrkja, barnmargar fjölskyldur og lágtekjufólk.

 

Árið var gott fyrir Skessuhorn á margan hátt og hefur umræða um mikilvægi gagmerks fréttamiðils á svæðinu styrkt rekstur blaðsins. Síðla árs var opnuð ný heimasíða og um leið gerðar ýmsar breytingar á henni. Markmið fyrirtækisins fyrir nýtt ár er annars vegar að leita leiða til að efla almenna upplýsingagjöf á Netinu og hinsvegar að leita leiða til að styrkja enn frekar stöðu vikulegs fréttablaðs á Vesturlandi.

 

Fyrir mína hönd og annarra starfsmanna Skessuhorns óska ég Vestlendingum og öðrum landsmönnum árs og friðar með þakklæti fyrir samskiptin á árinu 2004. Megi árið 2005 verða íbúum hagsælt og heillaríkt.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is