01. júní. 2014 12:32
Lokatölur liggja nú fyrir í kosningunum á Akranesi. Stórsigur Sjálfstæðisflokks undir forystu Ólafs Adolfssonar lyfsala er staðreynd. Þrátt fyrir að flokkurinn fái 41,3% atkvæða fær hann 5 bæjarfulltrúa af 9. Helgast þetta af því að hátt hlutfall atkvæða fellur dautt. Samfylking er næst stærsti flokkurinn með 23,9% fylgi og tvo bæjarfulltrúa. Frjálsir með Framsókn fá 14,4% atkvæða og einn bæjarfulltrúa og Björt framtíð fær 12,3% og einn mann. Vinstri hreyfingin grænt framboð fékk 8,1% atkvæða og missa sinn fulltrúa úr bæjarstjórn.
Bæjarfulltrúar verða því: Ólafur Adolfsson, Sigríður Indriðadóttir, Einar Brandsson, Valdís Eyjólfsdóttir og Rakel Óskarsdóttir frá Sjálfstæðisflokki. Ingibjörg Valdimarsdóttir og Valgarð Lyngdal Jónsson frá Samfylkingu. Ingibjörg Pálmadóttir frá Frjálsum með Framsókn og Vilborg Þórunn Guðbjartsdóttir frá Bjartri framtíð.