03. júní. 2014 01:25
Skemmtisiglingaskipið Gullfoss kom til Akraness um hádegisbil í dag eftir nokkurra sólarhringa siglingu frá hafnarbænum Pool á suðvestur Englandi. Siglt var um Írlandshaf, norður með Skotlandi með stefnu fyrir Reykjanes og rakleiðis í Akraneshöfn. „Siglingin gekk rosalega vel. Veðrið var frábært alla leiðina og allt gekk upp. Gullfoss er mjög fínt sjóskip,“ segir Guðmundur Jón Hafsteinsson skipstjóri þegar hann hafði lagt skipinu upp við Sementsbryggjuna á Akranesi í renniblíðu.
Skipið var smíðað árið 1979 í Skotlandi og var upphaflega í ferjusiglingum milli eyja við Skotland. Síðar var því svo breytt í skemmisiglingaskip og notað um árabil í ferðaþjónustu við strendur Englands. Gullfoss er 30 metra langur og mælist 175 brúttórúmlestir. Það er í eigu fyrirtækisins Sea Ranger ehf. en það er í eigu ferðaþjónustufyrirtækisins Skagaverks á Akranesi, Gunnars Leifs Stefánssonar, Sævars Sigurðssonar og fleiri aðila.
„Nú taka við einhverjir dagar þar sem skipið verður tekið í gegn. Það þarf að mála og sansa, og fá Gullfoss samþykktan til farþegasiglinga hjá íslenskum samgönguyfirvöldum. Síðan hefst reksturinn af fullum krafti. Það verður hvalaskoðun, sjóstangveiði, norðurljósaferðir og hvaðeina með ferðamenn hér á Faxaflóasvæðinu. Ég reikna með að skipið verði skráð fyrir allt að hundrað farþega til að byrja með,“ segir Guðmundur Jón.