03. júní. 2014 02:08
Kvennalið ÍA og Selfoss mættust í fjórðu umferð Pepsí-deildar kvenna í gærkvöld á JÁVERK-vellinum á Selfossi, þar sem lokatölur urðu 3-1 fyrir Selfoss. Selfossstúlkur tóku fljótt öll völd á vellinum og skorðu fyrsta mark leiksins á sjöttu mínútu. Eftir markið færðu Skagakonur sig ofar á völlinn en áttu í miklum erfileikum með að brjóta á bak sterka vörn heimamanna. Lið Selfoss sótti töluvert meira þegar leið á hálfleikinn en þær gulklæddu náðu skyndisókn á 28. mínútu þar sem Guðrún Karítas Jónsdóttir skoraði fyrsta mark Skagakvenna í Pepsí-deildinni. Eftir jöfnunarmarkið féllu Skagakonur mikið til baka. Hart var sótt að marki gestanna og á 38. mínútu skoraði Dagný Pétursdóttir fyrir Selfoss og þær sunnlensku komnar yfir á nýjan leik.
Síðari hálfleikur var heldur tíðindalítill til að byrja með. Um miðjan hálfleikinn höfðu bæði lið átt ágætar sóknir en þó var heimaliðið alltaf með yfirhöndina og líklegri til að bæta við. Það gerðist svo þegar um tíu mínútur voru eftir af leiknum. Það reyndist síðasta mark leiksins og lokatölur því 3-1 fyrir Selfoss. Skagakonur því enn án stiga þegar fjórar umferðir eru búnar af tímabilinu og sitja í næstneðsta sæti deildarinnar.
Næsti leikur Skagakvenna er á föstudaginn, 6. júní þar sem þær mæta liði Selfoss aftur á JÁVERK-vellinum en þá í Borgunarbikarnum og hefst sá leikur klukkan 19:15.