03. júní. 2014 02:27
Tilkynnt var í gær um byssu og skotfæri sem væru óvarin í sæti bifreiðar við hús í Borgarnesi. Í ljós kom að maður hafði skilið haglabyssu ásamt skotfærum eftir í ólæstri bifreið sinni utan við heimili sitt. Lögreglan lagði hald á haglabyssuna og haglaskotin, enda um ólöglegt athæfi að ræða sem litið er alvarlegum augum. Að sögn lögreglu ætti það að vera öllum augljóst að með því að skilja byssu og skotfæri eftir óvarin og ólæst sé verið að setja fólk í óþarfa hættu. Viðkomandi má eiga von á sekt fyrir tiltæki sitt og óvíst að hann fái skotvopnið afhent aftur. Málið er til frekari rannsóknar hjá lögreglunni í Borgarfirði og Dölum.