04. júní. 2014 08:16
Niðurstöður skoðanakönnunar í Dalabyggð 31. maí varðandi sameiningu sveitarfélaga liggja fyrir, en könnunin var gerð samhliða sveitarstjórnarkosningunum. Aðalspurningin í könnuninni var: „Vilt þú að sveitarstjórn Dalabyggðar kanni áhuga nágrannasveitarfélaga á sameiningu við Dalabyggð á kjörtímabilinu 2014-2018?“ Já, sögðu 137 eða 60,1% og nei sögðu 91 eða 39,9%. Skiptar skoðanir eru hinsvegar um hverjum væri heppilegast að sameinast. Reykhólahrepp völdu 72 eða 31,6%, Reykhólahreppur og Strandabyggð merktu 69 við eða 30,3% og Borgarbyggð völdu 32 eða 14%. Aðrir kostir fengu mun lakari útkomu: Vesturland allt fékk 20 atkvæði eða 8,8%, Stykkishólmsbær 11 atkvæði eða 4,8%, Húnaþing vestra 10 atkvæði eða 4,4%, annað 5 atkvæði og Strandabyggð 2 atkvæði.