04. júní. 2014 08:01
Nú um mánaðamótin lét af störfum hjá Heilbrigðisstofnun Vesturlands í Grundarfirði, Hildur Sæmundsdóttir ljósmóðir. Um svipað leyti árs fyrir 40 árum kom Hildur til starfa í Grundarfirði þá nýlega útskrifuð úr Ljósmæðraskóla Íslands. „Það er ágætt að hætta á þessum tímamótum. Mest mun ég sakna þess að fylgjast ekki lengur með þroska barnanna, ég hef gjarnan fylgt þeim alveg upp í grunnskólann. Verðandi mæðrum og fjölskyldum fylgdi ég venjulega í 2-3 ár, hitti þær a.m.k. mánaðarlega og sumum þeirra hef ég fylgst reglulega með samfleytt í 8-10 ár, þeim sem hafa verið duglegar við að eiga börnin,“ segir Hildur. Nokkur ár eru síðan hún komst á 95 ára regluna svokölluðu, það er samanlagðan starfsaldur og lífaldur. Síðustu árin hefur Hildur verið í hlutastarfi hjá HVE í ungbarna- og mæðraeftirliti. „Það eru miklar breytingar í heilbrigðismálum á landsbyggðinni. Þetta er mikil varnarbarátta og líka af þeim ástæðum er þetta orðið ágætt,“ segir Hildur. Fyrirséð er að ekki muni í hennar stað koma ljósmóðir til starfa í Grundarfirði. Hildur segir Snæfellinga lánsama að njóta starfskrafta Fannýjar Beritar Sveinbjörnsdóttur sem þar hefur starfað um árabil og er nú eina starfandi ljósmóðirin á Snæfellsnesi.
Sjá nánar spjall við Hildi í Skessuhorni sem kom út í dag.