04. júní. 2014 12:01
Nemendur og starfsfólk Grunnskólans í Borgarnesi hafa gróðursett trjáplöntur í flóanum upp af Borg frá árinu 1997. Er það gert með leyfi og í góðu samstarfi við sóknarprestinn á Borg, sr. Þorbjörn Hlyn Árnason. Á þessum átján árum hafa verið gróðursettar átta tegundir af trjám, alls tíu þúsund plöntur. Sá siður hefur myndast innan skólans að nemendur fara í gróðursetningarferð í upphafi skólagöngu sinnar í fyrsta bekk, aftur í fimmta bekk og svo við lok skólagöngunnar í tíunda bekk. Nú í vor gróðursettu nemendur þessara bekkja 1404 plöntur sem komu frá Yrkjusjóðnum og Arion banka. Í þessi átján ár hafa langflestar plönturnar komið frá Yrkjusjóðnum en ýmis fyrirtæki og einstaklingar hafa auk þess styrkt verkefnið.
Nánar er sagt frá skógrækt nemenda í Grunnskóla Borgarness í Skessuhorni sem kom út í dag.