04. júní. 2014 01:01
Frístundaheimilið Þorpið á Akranesi mun verða með smíðavöll starfandi frá 10. - 27. júní næstkomandi. Völlurinn verður staðsettur á lóðinni á bakvið húsið og er hluti af Gaman - saman starfi Þorpsins. Öll börn fædd 2001 - 2004 geta tekið þátt. Í apríl síðastliðnum var haldið páskabingó í Þorpinu til styrktar Gaman - saman. Fjölmörg fyrirtæki á Akranesi lögðu til vinninga og var ákveðið að ágóðinn myndi renna til sumarstarfsins. Smíðavöllur varð fyrir valinu, þar sem hægt verður að smíða kofa, kassabíla og annað sem börnin hafa áhuga á. Faglærður smiður mun leiðbeina börnunum á smíðavellinum. Völlurinn verður starfræktur alla dagana og samhliða honum verður margt annað gert, svo sem að fara í fjallgöngur, hjólaferðir, fjöruferðir, listasmiðju, útileiklist, sund og fleira.
Hægt verður að skrá sig fyrir hádegi eða allan daginn, en þá er hádegismatur innifalinn. Þá verður hægt að skrá sig á allt tímabilið eða í stakar vikur. Þátttökugjöld verða höfð í lágmarki. Verð fyrir fjögurra daga smíðavöll frá kl. 9 – 12 er 2.500 kr, fimm daga vikan er á 3.000 kr. Börn sem eru skráð frá kl. 9 – 16 þurfa að greiða 6.000 kr. (7.500 kr) fyrir vikuna og þá er innifalinn heitur hádegismatur og eftirmiðdagshressing.
Nánari upplýsingar er hægt að fá í gegnum vefsíðu Akraneskaupstaðar undir „Sumarstarf 2014“ eða hjá umsjónarmanni í síma 433-1252 / 433-1250, netfang: ruth.jorgensdottir@akranes.is