05. júní. 2014 02:01
„Þetta hefur gengið ágætlega. Það hefur enginn dáið í bílnum en fæddust tveir á þessum tíma sem ég var í sjúkraflutningunum. Þetta hefur að mörgu leyti verið gefandi starf og samstarfsfólkið mjög gott. Það versta við starfið er hvað þetta er bindandi. Það má segja að það verði núna loksins eftir á þriðja tug ára sem ég þarf ekki að velta því fyrir mér þegar ég fer inn í helgina hvort ég er á vakt eða ekki,“ segir Þorkell Gunnar Þorkelsson sem á dögunum hætti formlega starfi sjúkraflutningsmanns í Grundarfirði. Hann var þá kvaddur, sem og Hildur Sæmundsdóttir ljósmóðir, af samstarfsfólki í Heilbrigðisstofnun Vesturlands í Grundarfirði. Þorkell Gunnar hefur starfað við sjúkraflutningana frá árinu 1992 eða í 22 ár. Áður en hann byrjaði í sjúkraflutningunum starfaði hann sem lögreglumaður í nokkur ár, þá aðallega á helgarvöktum. Þannig að starfsskyldur um helgarnar hafa ansi lengi fylgt Þorkeli Gunnari, eða Gunna múr eins og hann er kallaður.
Lesa má allt viðtalið við Gunna í nýjasta tölublaði Skessuhorns.