05. júní. 2014 09:00
Sokkaverksmiðjan Trico á Akranesi hefur byrjað framleiðslu á sokkum með myndum af Akranesvita þeim stærri. Þessir sokkar verða meðal annars seldir í sjálfum vitanum á Breiðinni. Straumur ferðamanna er stöðugt að aukast í vitana enda þeir og umhverfið mjög vinsælt til ljósmyndunar. Undanfarið hefur Akraneskaupstaður gert gangskör í að snyrta umhverfið við vitana enda reiknað með að fjöldi ferðamanna á Breiðinni muni slá öll fyrri met nú í sumar. Vitasokkarnir ættu því að geta orðið prýðilegir minjagripir þeirra sem leggja leið sína út á Breið.