Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
04. júní. 2014 02:28

Meirihluti myndaður í Borgarbyggð og Kolfinna ráðin sveitarstjóri

Það tók sveitarstjórnarfulltrúa Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks í Borgarbyggð einungis þrjá daga að mynda meirihluta í sveitarfélaginu eftir að niðurstöður kosninganna lágu fyrir aðfararnótt sunnudags. Skrifað var undir samkomulag í Ráðhúsinu í hádeginu í dag þess efnis að flokkarnir taki höndum saman næsta kjörtímabil. Flokkarnir eiga sex af níu fulltrúum í sveitarstjórn, Samfylking tvo og Vinstri grænir einn. Við sama tilefni var tilkynnt að búið væri að ráða Kolfinnu Jóhannesdóttur í Norðtungu, skólameistara Menntaskóla Borgarfjarðar, í svarf sveitarstjóra. Mun hún taka við embættinu 1. ágúst næstkomandi. Fyrri tvö ár kjörtímabilsins verður Björn Bjarki Þorsteinsson oddviti sjálfstæðismanna forseti sveitarstjórnar en Guðveig Anna Eyglóardóttir oddviti framsóknarmanna verður formaður bæjarráðs. Eftir tvö ár víxla þau síðan embættum. Tilkynnt verður á fundi sveitarstjórnar 12. júní um skiptingu fólks í nefndir og ráð en búið er að ákveða að formennska í velferðarnefnd og umhverfis,- skipulags- og landbúnaðarnefnd falli í hlut D lista en formennska í fræðslunefnd falli í hlut B lista. Í stjórnir OR og Faxaflóahafna fara fulltrúar frá D lista.

Mikil áskorun

Kolfinna Jóhannesdóttir sat í tvö kjörtímabil, frá árinu 1998 til 2006, í sveitarstjórn Borgarbyggðar fyrir hönd Framsóknarflokks og er því hnútum kunnug í stjórnsýslunni og í Ráðhúsinu. Hún er með BS próf í viðskiptafræði og MA próf í hagnýtum hagvísindum með áherslu á svæðafræði frá Háskólanum á Bifröst. Auk þess hefur hún m.a. diploma í stjórnun. Varðandi ráðningu Kolfinnu kom fram hjá oddvitum beggja flokkanna að nafn hennar hafi komið í umræðuna strax á sunnudaginn og í framhaldi af viðræðum við hana hafi verið afráðið að ráða hana í starfið. Um leið hafi verið horfið frá því að auglýsa starf sveitarstjóra eins og reyndar báðir flokkar höfðu boðað í kosningabaráttunni að gert yrði, kæmust þeir til valda. „Kolfinna er kröftugur og afar samviskusamur einstaklingur sem við þekkjum einungis af hinu góða. Hún gengur vasklega til verka og það eru einmitt þeir kostir sem prýða þurfa þann sveitarstjóra sem nú tekur við,“ sagði Björn Bjarki Þorsteinsson við þetta tilefni. Kolfinna kvaðst þakklát því mikla trausti sem henni væri sýnt og sagði forréttindi að fá að takast á við áskorun sem þessa. Hún leyndi því þó ekki að hún komi til að sakna starfsins í Menntaskóla Borgarfjarðar. „Ég er mjög spennt fyrir starfi sveitarstjóra og hlakka til að takast á við það,“ sagði Kolfinna.

 

Málefnasamningur

Í málefnasamningi flokkanna segir um stjórnsýsluna að hún verði endurmetin og styrkt. Upplýsingagjöf til íbúa verði bætt t.a.m með samskiptasíðu, kynningarfundum og föstum viðtalstímum sveitarstjórnarfulltrúa. Eftirlit skal eflt með fjárhagsáætlun og framvindu á framkvæmdakostnaði og unnið verði markvisst að lækkun skulda sveitarsjóðs.

 

Í atvinnu,- kynningar- og menningarmálum verður staðið vörð um opinber störf í héraðinu og leitað leiða til að auka fjölbreytni þeirra. Gert verður samkomulag við Íbúðalánasjóð varðandi uppsetningu minni leiguíbúða og gert átak til að koma húsnæði í eigu sjóðsins í notkun. Þrýst verði á ríkisvaldið um úrbætur er varðar vegamál, nettengingar og þriggja fasa rafmagn. Farið verður í markaðs- og kynningarátak til eflingar sveitarfélagsins, m.a. með það að markmiði að laða að nýja íbúa, fyrirtæki, ferðamenn og viðburði ýmiskonar. Menningarssjóður Borgarbyggðar fær aukið fjármagn og tilnefna skal listamann Borgarbyggðar á hverju ári.

 

Í umhverfis- og skipulagsmálum verður unnið skipulag varðandi „nýja“ miðbæinn í Borgarnesi.  Skipulag varðandi legu þjóðvegarins um Borgarnes verði endurmetið og umferðaröryggi á þjóðvegum í gegnum þéttbýliskjarna í Borgarbyggð verði bætt í samstarfi við vegamálayfirvöld. Áfram verði þrýst á lagfæringu á Uxahryggjavegi og öðrum malarvegum í Borgarbyggð. Þá á að bjóða Vegagerðinni að Borgarbyggð verði „tilraunasamfélag“ varðandi endurbætur á vegakerfinu. Loks á að efla umhverfisvitund og þátttöku allra í samfélaginu varðandi hreinsun og fegrun.

 

Í fjölskyldu- og velferðarmálum verður leitast við að stilla leikskólagjöldum í hóf, sumarlokun verði tvær vikur frá og með árinu 2015. Börn frá 12 mánaða aldri fái vistun á þeim leikskólum þar sem því er við komið. Systkinaafsláttur skal gilda á öllum vistunarstigum sveitarfélagsins. Lögð verður áhersla á samræmingu í þjónustuframboði og fjárveitingum til grunnskólanna í sveitarfélaginu og aðbúnaður í skólum sveitarfélagsins verður bættur eins og kostur er. Áfram verði rekinn öflugur tónlistarskóli í Borgarbyggð, útgáfu á frístundakortum til barna og unglinga verður komið á og komið skal á heimavist fyrir nemendur í Menntaskóla Borgarfjarðar.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is