05. júní. 2014 09:18
„Hann tók rauða Frances keilutúbu og þetta var gaman,“ sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra þegar hann landaði laxi við Brotið í Norðurá í morgun. Þetta var annar laxinn sem úr ánni kom í morgun. Fiskur Bjarna var nýgengin 78 cm hrygna sem hann veiddi á Brotinu klukkan hálf átta. Það var hins vegar Sigurður Sigfússon, bróðir Einars sem hefur með sölu árinnar að gera, sem veiddi fyrsta fiskinn laust eftir klukkan sjö á veiðistaðnum Bryggjunni. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra var einnig við veiðar en hann setti ekki í fisk, enda ekki sérlega útbúinn til laxveiða og veiddi því af bakkanum. Þessari boðsferð ráðherranna í Norðurá er nú að ljúka þar sem þeir eru bókaðir til annarra verkefna nú fyrir hádegi. Veiðimenn halda hins vegar áfram á bökkum Norðurár í dag. Skilyrði til veiða eru ágæt í ánni; gott vatn og þá er veiðiveðrið einnig með besta móti.