06. júní. 2014 09:40
Skagamenn lyftu sér upp töfluna í hóp efstu liða í 1. deildinni þegar þeir sigruðu HK 2:0 í kvöld á Akranesvelli. Heimamenn voru mun betra liðið í fyrri hálfleiknum og nær allsráðandi á vellinum. Afgerandi færi skorti þó í sókninni, en mikið um hálfæri inn í teig HK manna. Mesta hættan skapaðist í aukaspyrnum sem Skagamenn fengu rétt við teiginn. Upp úr einni þeirra skallaði Arnar Már Guðjónsson boltann í fallegum boga yfir markvörð HK og í markið. Þetta gerðist á 37.mínútu og var eina mark fyrri hálfleiks.
Seinni hálfleikurinn var jafnari en það sama upp á teningnum og í fyrri hálfleiknum lítið um alvöru færi. Skagamenn gerðu svo út um leikinn á 76. mínútu. Eftir nokkra pressu á mark HK fékk Þórður Þorsteinn Þórðarson boltann rétt við markteiginn og sendi hann snyrtilega á milli fóta markvarðar HK og í markið. Þórður var þá nýkominn inn á stað Jóns Vilhelms Ákasonar. Undir lokin voru það gestirnir sem sóttu meira en ÍA lagði meira upp úr að halda fengnum hlut og tókst það. Skagamenn eru þá komnir með 9 stig og eru sem strendur í þriðja sæti. Næsti leikur þeirra í 1. deildinni verður gegn Tindastóli á Sauðárkróki laugardaginn 14. júní.
MT: Fyrra mark Skagamanna í leiknum staðreynd. Ljósm. þá.