Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
07. júní. 2014 10:47

Makríltorfurnar eru komnar til landsins

Nú þegar sólin skín yfir öllu Íslandi á hvítasunnuhelgi er staðfest að töluvert af makríl virðist genginn á grunnslóðina vestur og suður af landinu. Sjómenn sem stunda handfæra- og línuveiðar undir Snæfellsjökli hafa séð vaðandi torfur og makríll hefur bitið á krókana hjá þeim.

 

„Það virðist vera nóg af honum. Nú í vikunni höfum við séð torfur vaða hér á grunnunum allt frá Malarrifi vestur um og austur fyrir Ólafsvík. Makríll hefur fengist á handfærin og línubátarnir hafa líka orðið varir við hann. Þetta virðist þó frekar smár makríll og hann er horaður, fituröndin í honum er lítil enn sem komið er. Kaupendur hafa því vart áhuga á honum enn, enda mega veiðar ekki byrja fyrr en 1. júlí. Makríllinn ætti því að hafa nokkrar vikur til að fita sig nú,“ sagði Arnar Laxdal Jóhannsson skipstjóri á línubátnum Tryggva Eðvarðs SH þar sem hann var nýkominn úr róðri í Rifshöfn í gær.

 

Á þriðjudag birti Skessuhorn frétt þar sem Arnar og félagar greindu frá því að þeir hefðu kvöldið áður séð vaðandi fiskitorfur umhverfis bát þeirra á miðunum undir Jökli sem þeir töldu líklega hafa verið makríl. Það hefur svo sannast síðar í vikunni að þetta reyndist rétt því menn hafa dregið makríl með öðrum afla úr sjó. Makríll hefur á undanförnum árum synt inn í íslensku lögsöguna í ætisleit yfir sumartímann.

 

Arnar sagðist einnig hafa frétt frá línubátum sem stunda veiðar suður af landinu að þar hefði sést til makríls allt frá Vestmannaeyjum austur undir Höfn í Hornafirði. Það er óvenjulegt að svo mikið af makríl sjáist svona snemma sumars. Arnar segir að undir Jökli geti það skýrst af því að sjórinn þar sé tveimur til tveimur og hálfri gráðu hlýrri nú en á sama tíma í fyrra. „Það hefur líka hlýnað mjög hratt. Þorskveiðin er alveg dottin niður og hún er mjög léleg núna. Það eru viðbrigði frá því nú í maí þegar hún var afar góð allt til loka mánaðarins.“

 

Búast má við að fjöldi útgerða hyggist senda báta sína á markílveiðar í sumar enda um mikil verðmæti að tefla. Sú staðreynd að makríllinn sé kominn upp að landinu svo snemma í jafn miklum mæli og vísbendingar eru um, ætti því að vera góðar fréttir fyrir þá sem hyggja sér gott til glóðarinnar bæði í veiðum og vinnslu.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is