07. júní. 2014 09:06
Björgunarsveitir frá Grundarfirði og Snæfellsbæ voru kallaðar að Sandkúlum á Snæfellsjökli um klukkan 15 í dag þegar boð bárust um slasaðan vélsleðamann. Sjúkrabíll og læknir frá Ólafsvík sem og þyrla Landhelgisgæslunnar voru einnig kölluð út. Nokkur hópur af vélsleðafólki var á slysstaðnum. Þar á meðal var hjúkrunarfræðingur sem hlúði að manninum þar til björgunarsveitir komu á staðinn og undirbjuggu hann til flutnings með þyrlunni. Þyrla LHG lenti svo á slysstað rétt upp úr klukkan 16 og flutti hinn slasaða á sjúkrahús í Reykjavík.
Á leið suður lenti þyrlan einnig við Löngufjörur þar sem hún tók upp konu sem hafði hlotið höfuðáverka við fall á steinvegg.
Samkvæmt fréttavef mbl.is mun líðan beggja vera eftir atvikum að sögn vakthafandi læknis á Landsspítalanum í Fossvogi.