07. júní. 2014 09:54
Þó aðeins sé liðin rétt vika af júnímánuði þá hafa bændur á Vesturlandi byrjað heyskap. Sprettuskilyrðin það sem af er sumri hafa verið svo einmuna góð að menn muna vart annað eins. Það er því ekki lengur til setunnar boðið. Skessuhorni er kunnugt um að sláttur sé nú hafinn á nokkrum bæjum á Vestanlandi.
„Það er búið að slá og rúlla af rúmlega einum hektara. Ég sló í gærmorgun. Síðan sé ég að það er alveg óhætt að slá af fjórum hektörum í viðbót. Það hefur aldrei verið slegið svona snemma fyrr. Sprettuskilyrðin eru búin að vera alveg glimrandi, bæði hlýtt og rakt,“ segir Bjartmar Hannesson bóndi á Norður Reykjum í Hálsasveit.
Þórarinn Skúlason bóndi á Steindórsstöðum í Reykholtsdal sló einnig fyrsta sinni í gær, föstudag. „Ég byrjaði í gær og sló fjóra hektara. Það var búið að vera smá hik á mér út af veðurútliti en svo var spáin svo góð að ég lét vaða. Uppskeran er mjög fín enda tíðin búin að vera einstaklega góð. Alger einmuna tíð. Ég hef aldrei byrjað svona snemma. Það næsta sem ég hef komist þessu var 2004. Þá byrjaði ég að slá 8. júní,“ segir Þórarinn á Steindórsstöðum.
Þriðji bærinn er Belgsholt í Melasveit. „Það er komið ágætis gras og við hófum slátt í gær. Ég hef þó byrjað fyrr áður. Árið 2003 minnir mig, hófum við slátt 4. júní. Þá var spáð svo góðum þurrk að ég tímdi ekki að sleppa honum. Nú byrjum við 6. júní og það er komið meira gras heldur var þarna árið 2003. Ef tíðin verður eins og hún er nú um helgina þá reikna ég með að halda slætti áfram,“ segir Haraldur Magnússon bóndi í Belgsholti.