09. júní. 2014 02:47
Vinstri hreyfingin grænt framboð á Akranesi hefur afhent Einari Ólafssyni formanni kjörstjórnar beiðni um að endurtalning atkvæða í sveitarstjórnarkosningunum á Akranesi fari fram. Þegar atkvæði höfðu verið talin á Akranesi aðfararnótt 1. júní sl. kom í ljós að Rakel Óskarsdóttir 5. maður á lista Sjálfstæðisflokksins hafði 267,2 atkvæði á bak við sig, en Þröstur Þór Ólafsson 1. maður á lista VG hafði 261 atkvæði og komst því ekki í bæjarstjórn. Eftir að skekkja hafði komið í ljós við endurtalningu atkvæða í Hafnarfirði ákváðu VG félagar á Akranesi að óska eftir því við kjörstjórn að talið yrði upp á nýtt. Miðað við framangreindar atkvæðatölur þyrfti VG að fá a.m.k. sjö atkvæði umfram Sjálfstæðisflokk til að niðurstaða kosninganna breyttist.
Einar Ólafsson formaður kjörstjórnar sagði í samtali við Skessuhorn í dag að fulltrúi lista VG hafi afhent sér umslag með kærunni síðastliðinn laugardag og muni hann opna það þegar hann hafi náð að kalla kjörstjórn saman til fundar eftir Hvítasunnuhelgina, nú væru flestir í fríi og því ekkert hægt að aðhafast. Einar kvaðst þar að auki þurfa að afla sér lögfræðilegrar aðstoðar um hver næstu skref kjörstjórnar ættu að vera í málinu. Hann þyrfti t.d. að sjá það í lögum hvort það sé sýslumaður sem þurfi að óska eftir endurtalningu atkvæða eða hvort kjörstjórn eigi að kveða úr um það sjálf. „Næstu skref munu skýrast á allra næstu dögum. Fyrir mína parta er í það minnsta sjálfsagt mál að láta fara fram endurtalningu atkvæða sé það skylda okkar að gera það,“ sagði Einar Ólafsson.