10. júní. 2014 09:20
Á morgun hefst Prestastefna á Ísafirði. Hefst hún með prósessíu frá Safnahúsinu Eyrartúni í Ísafjarðarkirkju kl. 17:45 þar sem hún verður sett með helgistund. Á dagskrá stefnunnar er meðal annars erindi sr. Vigfúsar Bjarna Albertssonar, sjúkrahússprests, sem hefur yfirskriftina „Sú góða gjöf að hitta sjálfan sig fyrir í vinnu.“ Þá verða sýnd níu kynningarmyndbönd um starf þjóðkirkjunnar um allt land. Einnig verður rætt um ný þjóðkirkjulög, val og veitingu prestsembætta og fundarsköp prestastefnu. Prestastefna mun heimsækja Bolungarvík, þar sem Agnes Sigurðardóttir biskup þjónaði áður en hún tók við embætti biskups. Að kvöldi miðvikudagsins 11. júní verður kvöldbæn í Hólskirkju og svo munu þátttakendur snæða hátíðarkvöldverð í félagsheimilinu í Bolungarvík.
Fréttir af prestastefnu verða sagðar á kirkjan.is og myndir frá stefnunni verða birtar á www.flickr.com/kirkjan. Meðfylgjandi mynd var tekin við upphaf Prestastefnu 2013 sem var haldin í Háteigskirkju.
-fréttatilkynning