10. júní. 2014 09:49
Víkingur frá Ólafsvík komst í annað sæti fyrstu deildar karla í knattspyrnu eftir góðan sigur á Þrótti R í gær. Leikið var á Ólafsvíkurvelli en bæði lið þurftu nauðsynlega á stigum að halda til að halda sér í toppbaráttu deildarinnar. Heimamenn byrjuðu leikinn af krafti og á 16. mínútu kom Alejandro Abarca Lopez þeim yfir. Sú forysta entist ekki lengi þar sem gestirnir frá Reykjavík jöfnuðu metin aðeins fjórum mínútum síðar. Þannig var staðan þegar liðin gengu til búningsklefa í hálfleik.
Seinni hálfleikur var heldur tíðindalítill. Bæði lið áttu sín færi en lítil hætta var á ferð í þeim flestum. Heimamenn gáfust þó ekki upp og þegar tíu mínútur voru eftir af leiknum sóttu þeir stíft að marki Þróttara. Á 83. mínútu dró svo til tíðinda þegar Alfreð Már Hjaltalín skoraði fyrir Víking og kom þeim yfir á ný. Eftir markið reyndu Þróttarar hvað þeir gátu að jafna metin en allt kom fyrir ekki og heimamenn unnu góðan sigur á erfiðum andstæðingi. Eftir sigurinn eru Víkingsmenn komnir í annað sæti 1. deildarinnar, aðeins stigi á eftir Leikni R sem er í efsta sæti.
Næsti leikur Víkings Ó. verður gegn HK þegar liðin mætast í Kórnum í Kópavogi laugardaginn 14. júní klukkan 14:00.