11. júní. 2014 06:01
Vegfarendur með lögheimili á höfuðborgarsvæðinu greiða liðlega 23% af áskriftartekjum Spalar, sem á og rekur Hvalfjarðargöng. Sambærilegur hlutur áskrifenda af öllu Vesturlandi er 19,5% og þar af er hlutur áskrifenda á Akranesi 12,6%. Af þessu sést að miðað við höfðatölu eru íbúar á Vesturlandi að greiða hlutfallslega langmest í rekstri ganganna. Þeir eru um 4,7% íbúa landsins en greiða eins og fyrr segir 19,5% af rekstri ganganna.
Niðurstaða nýrrar greiningar á gögnum úr upplýsingakerfi Hvalfjarðarganga varðandi tekjur Spalar á árinu 2013 leiða fyrrgreindar upplýsingar í ljós. Í frétt á heimasíðu fyrirtækisins segir að þegar á heildina sé litið er skipting tekna af umferðinni sem hér segir: Áskrifendur með veglykla greiða 48,53%, áskrifendur með afsláttarkort 16,32% og vegfarendur sem staðgreiða í gjaldskýli greiða 35,15%. Hér vekur athygli að hlutur staðgreiðslunnar hefur aukist umtalsvert og er skýringin á því sögð fjölgun erlendra ferðamanna á þjóðvegum á sumrin. Fyrir fáeinum árum var hlutur staðgreiðslu í heildartekjum um 30%. Stærstu kaupendur afsláttarkorta eru stéttarfélög sem síðan selja kortin til félagsmanna sinna.