10. júní. 2014 09:18
Eins og fram kom í frétt hér á vef Skessuhorns í gær óskaði Vinstri hreyfingin grænt framboð á Akranesi eftir því við kjörstjórn á Akranesi að fram færi endurtalning atkvæða í sveitarstjórnar-kosningunum í bænum. Var farið fram á það vegna lítils munar á milli 5. manns Sjálfstæðisflokks og 1. manns VG. Var munurinn nákvæmlega 6,2 atkvæði, sem þýddi að við endurtalningu hefði VG þurft að fá sjö atkvæðum meira en Sjálfstæðisflokkur ekkert. Samkvæmt heimildum Skessuhorns fór endurtalning atkvæða fram í dag og lá niðurstaðan fyrir í kvöld. Úrslit kosninganna standa óbreytt. Reyndar fór það svo að við endurtalningu bætti Sjálfstæðisflokkurinn við sig tveimur atkvæðum sem flokkuð höfðu verið með auðum atkvæðaseðlum. Sömuleiðis fékk Samfylking eitt atkvæði og Frjálsir með framsókn eitt. Munurinn á 5. manni Sjálfstæðisflokks og 1. manni VG jókst því talsvert mikið hlutfallslega við endurtalninguna. Samkvæmt sömu heimildum Skessuhorns stendur ekki til að telja atkvæðaseðlana á Akranesi oftar að þessu sinni. Það skal þó tekið fram að kjörstjórn á Akranesi hefur ekki sent frá sér formlega tilkynningu um endurtalninguna.