11. júní. 2014 10:11
Eins og fram hefur komið í Skessuhorni ákvað Framfarafélag Borgfirðinga fyrr í vor að efna til Rabarbarahátíðar í Reykholti laugardaginn 21. júní í samstarfi við Búdrýgindi og Saga Geopark. Dómnefnd var skipuð og kom hún saman í gær til að leggja á ráðin um framkvæmdina og sín mikilvægu störf. Viðfangsefni keppninnar er rabarbari og keppt er í þremur flokkum; sultun, bakkelsi og frjálsri aðferð. Vegleg verðlaun verða í boði, en í fyrstu verðlaun verður Kitchen Aid hrærivél frá Einari Farestveit, töfrasproti í önnur verðlaun og grillsett í þriðju. Þar að auki verða sérstök verðlaun fyrir frambærilegustu vöruna. Sá sem þau hlýtur fær fjóra daga í Matarsmiðjunni að launum og hönnunaraðstoð hjá Vitbrigðum Vesturlands.
Keppnin er öllum opin og skráningarfrestur er til klukkan 12 á hádegi sama dag og keppnin fer fram. Þeir sem hafa áhuga á að taka þátt er bent á að hafa samband við Eddu Arinbjarnar í Húsafelli eða senda henni póst á: edda@husafell.is Dómnefndin í keppninni metur afurðirnar með blindsmökkun. Því eru keppendur beðnir að merkja rétti sína ekki sérstaklega. Gott væri að upptalningu á innihaldsefnum með réttunum, ekki er þó óskað eftir uppskriftum. Úrslit verða kunngjörð þegar dómnefnd hefur lokið störfum um klukkan 16:00.
Formaður dómnefndar er Nanna Rögnvaldardóttir matreiðslubókahöfundur. Með henni sitja í nefndinni Jónas Björgvin Ólafsson matreiðslumaður, Ylfa Helgadóttir matreiðslumeistari, Svavar Halldórsson matarblaðamaður og Páll S. Brynjarsson sælkeri og fráfarandi sveitarstjóri í Borgarbyggð.
Aðstandendur Rabarbarahátíðar hvetja fólk til þátttöku og vilja nefna að ekki er skylda að taka þátt í öllum flokkum þótt það sé kostur. Allir eiga möguleika á þessum góðu vinningum og vonast er eftir líflegum viðtökum og skemmtilegri keppni. Vanti menn frekari upplýsingar er bent á Facebooksíðu Framfarafélags Borgfirðinga.