11. júní. 2014 10:40
Opnað verður fyrir umferð á sunnanverða Arnarvatnsheiði sunnudaginn 15. júní og hefst þá veiðitímabilið formlega í hinum fengsælu silungsveiðivötnum þar. Í tilkynningu frá stjórn Veiðifélags Arnarvatnsheiðar segir að vegirnir séu að þorna, nú sé allgóð færð í Úlfsvatn en vegurinn ofan við Álftakrók er enn að hluta undir snjó þannig að bið verður á að hægt verði að fara þar um. Þó er orðið fært til móts við Mordísarvatn. Þar sem vegir og slóðar geta verið varhugaverðir eru veiðimenn sem leggja á heiðina nú í byrjun veiðitímabilsins hvattir til að aka ekki þar sem hætta er á að bleyta geti leynst.
Vatnsstaðan í vötnunum á heiðinni er ágæt eftir veturinn og fyrsta mýflugnagangan var í hámarki um liðna helgi þannig að hún gæti verið búin þegar opnað verður um miðjan mánuðinn. Búið er að gera veiðihúsin klár til útleigu. Veiðileyfi eru seld í söluskálanum við Hraunfossa í Hálsasveit, en allar nánari upplýsingar um heiðina er að finna á: www.arnarvatnsheidi.is