13. júní. 2014 08:01
Á þjóðhátíðardaginn lýkur vetrarstarfi Dómkórsins í Reykjavík og um líkt leyti er það til siðs að kórfélagar leggi land undir fót. Að þessu sinni liggur leiðin í Borgarfjörð þar sem sungið verður í Reykholtskirkju klukkan 15 á morgun, laugardaginn 14. júní. Á dagskránni verða þjóðlög og sálmar úr ýmsum áttum. Meðal þess sem kórinn syngur eru lög eftir Borgfirðinginn Ingibjörgu Bergþórsdóttur frá Fljótstungu, þar af eitt við ljóð eftir nágranna hennar, Guðmund Böðvarsson.
Dómkórinn hefur starfað í núverandi mynd á fjórða áratug. Auk þess að sinna kirkjusöng í Dómkirkjunni heldur kórinn tónleika reglulega og stendur fyrir árlegum Tónlistardögum Dómkirkjunnar á haustin. Á síðustu tónleikum kórsins flutti hann Carmina Burana í félagi við Kór Menntaskólans í Reykjavík en Kári Þormar dómorganisti stjórnar báðum kórunum um þessar mundir. Flutningurinn hlaut fjórar stjörnur af fimm mögulegum í umsögn Jónasar Sen gagnrýnanda Fréttablaðsins. Aðgangur að tónleikunum í Reykholti er ókeypis og allir velkomnir.
-fréttatilkynning