12. júní. 2014 02:01
Hollvinahátíð verður haldin á Bifröst í Borgarfirði í annað sinn laugardaginn 21. júní nk. Margt verður á dagskrá líkt og golfmót hollvina, gönguferð á Grábrók, skemmtileg málstofa, kokteill í boði háskólans, þriggja rétta hátíðarkvöldverður og ball með Upplyftingu. Hátíðin er samstarfsverkefni Hollvinasamtakanna, Háskólans á Bifröst, Sjéntilmanna og Nemendafélagsins og er tilgangurinn að gefa núverandi og fyrrverandi nemendum á Bifröst tækifæri til að hittast, kynnast og efla tengslin. „Er það von stjórnarinnar að hollvinir nær og fjær, nemendur og starfsfólk taki helgina frá, skrái sig, gleðjist saman yfir gömlum minningum og búi til nýjar sameiginlegar,“ segir í tilkynningu. Lesa má nánar um dagskrá og afþreyingu á Bifröst á vef skólans.