12. júní. 2014 02:15
Í morgun veiddist í Norðurá í Borgarfirði tuttugu punda lax, 100 cm langur hængur. Veiðistaðurinn var Stekkurinn. Það voru félagarnir Bjarki Már Jóhannsson og Sigurður Ásbjörn sem kræktu í þann stóra. Langt er síðan svona stór lax hefur veiðst í þessari annars gamalfrægu stórlaxaá. Bjarki Már sagði í samtali við Skessuhorn að þetta hefði verið gríðarlega fallegur fiskur sem tók á Bismo í yfirborðinu, neðst á brotinu. „Ég var svona um 15 mínútur að landa honum. Fiskurinn tók frekar grunnt svo ég vildi spila frekar öruggt, alls ekki missa þennan feng. Laxinn var lúsugur og mjög flottur, svo hann hefur greinilega verið nýgenginn. Það er upplifun að fá að landa svona stórum laxi,“ sagði hinn kampakáti veiðimaður.