13. júní. 2014 12:21
Fyrr í vikunni mætti ófögur sjón eigendum hesthúsa og fjárhúsa við gamla þjóðveginn inn að Innsta Vogi rétt innan Akraness. Búið var að brjóta rúður í húsunum með grjótkasti. Þessi hús hafa staðið þarna í friði um áratuga skeið, hýst sauðfé og hesta í eigu tómstundabænda á Akranesi og sett skemmtilegan svip á lífsflóru bæjarfélagsins. Málið hefur verið tilkynnt til lögreglunnar á Akranesi og er í rannsókn. Hjá henni fékkst upplýst í dag að ekki sé vitað að svo stöddu hverjir voru hér á ferð. Lýst er eftir upplýsingum um hverjir gætu hafa verið valdir að þessum tilgangslausu skemmdarverkum sem talið er að hafi verið framin um kvöldmatarleytið þriðjudaginn 10. júní sl.