13. júní. 2014 01:16
Á morgun, laugardaginn 14. júní, fer hið árlega Sjóvá Kvennahlaup ÍSÍ fram í 25. sinn. Hér á Vesturlandi verður hlaupið á ellefu stöðum, eins og lesa má í auglýsingu í Skessuhorni vikunnar. Oftast hefst hlaupið á hverjum stað klukkan 11, en þó eru undantekningar frá því, eða klukkan 10:30 á Akranesi og Hvalfjarðarsveit, 11:15 í Reykholti og í Grundarfirði klukkan 14. Kvennahlaupið er einn stærsti íþróttaviðburður ársins. Undanfarin ár hafa þátttakendur í því verið í kringum 15 þúsund. Hátíðardagskrá verður á mörgum hlaupastöðum og víða verður frítt í sundlaugar fyrir þátttakendur að loknu hlaupi. Engin tímataka er í Kvennahlaupinu en hefð hefur skapast hjá mæðgum, systrum, frænkum og vinkonum að mæta saman í hlaupið og hvetja hver aðra áfram.