13. júní. 2014 06:36
„Við erum búnar að reka þetta síðan sumarið 2007. Þetta var okkar hugmynd að hefja rekstur kaffihúss hér í þessu húsi. Það er bara opið á sumrin frá 1. júní til 1. september ár hvert. Þetta hefur undið vel upp á sig með hverju árinu. Hér erum við með víðfræga fiskisúpu og síðan gæðakaffi og meðlæti með því. Allt heimabakað,“ segir Anna Þóra Böðvarsdóttir. Hún á og rekur Gamla Rif Kaffistofu ásamt Sigríði Margréti Vigfúsdóttur. Þær stöllur eru báðar sjómannskonur undir Jökli. „Sumarið er okkar vertíð en þetta er mjög skemmtilegt. Við höfum opið frá 11 á morgnana til 20 á kvöldin alla daga vikunnar. Við erum fjórar sem störfum hérna,“ segir Anna Þóra. Á veturna starfar hún sem jógakennari og Sigríður Margrét er þroskaþjálfi.
Kaffistofan er í gömlu steinhúsi uppi á bakkanum rétt ofan við höfnina í Rifi. Útsýnið þaðan er stórfenglegt á björtum degi þar sem sjálfur Snæfellsjökull í suðri er krúnan af djásnunum. Umhverfis iðar allt af fuglalífi. Þar eru kríurnar fremstar í flokki.
Sjá nánar spjall við þær stöllurnar í Skessuhorni vikunnar.