13. júní. 2014 06:40
Jóhanna Leópoldsdóttir er gestgjafi í Birtu gistihúsi, sem er sumargistihús staðsett í heimavist Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi. Hún og fjölskylda hennar hafa einnig í nokkur ár rekið „Litla gistihúsið við sjóinn,“ við Bakkatún. „Þetta er þriðja sumarið mitt hér í Birtu en ég hef verið helmingi lengur með Litla gistihúsið,“ segir Jóhanna einn bjartan júnímorgun þegar blaðamaður kíkti í heimsókn. Hún segist finna fyrir breytingu á ferðamannastraumnum til landsins, líkt og margir ferðaþjónustuaðilar þekkja. „Það er aukning á milli ára hjá mér en það er eðli þess að vera nýr á markaði. En ég finn samt sem áður breytingu í hverjir sækja landið heim. Áður voru flestir erlendu ferðamennirnir fólk sem var vel undirbúið og hafði ferðast mikið, var félagslega- og umhverfislega meðvitað. Margir höfðu engan sérstakan áhuga á að búa á hóteli, þar sem ekki sést hvort þú ert á Íslandi eða í Singapour þegar inn á herbergi er komið, heldur langaði frekar að mynda mannleg tengsl við skrýtna karla og kerlingar í ferðaþjónustu um allt land. Í fyrra fannst mér meira af ferðafólki sem ekki hafði lagst í grúsk fyrir komuna. Auðvitað kemur allskonar fólk, það er nú það sem er svo skemmtilegt, en hluti af viðbótinni er fólkið sem ekki er eins ferðavant,“ segir Jóhanna.
Sjá nánar viðtal við Jóhönnu í nýjasta Skessuhorni.