Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
16. júní. 2014 11:01

Aðsókn að námi við Háskólann á Bifröst er að stóraukast

Vilhjálmur Egilsson rektor Háskólans á Bifröst útskrifaði 135 nemendur frá skólanum síðastliðinn laugardag. Nemendurnir sem útskrifuðust voru úr Háskólagátt og úr grunn- og meistaranámi. Í ræðu sinni við þetta tilefni fjallaði Vilhjálmur um þau vináttubönd sem myndast og hvernig Bifrastarglampinn í augum nemenda er helsta vörumerki skólans. Vék hann að þeim gildum sem skólinn hefur tileinkað sér. „Háskólinn á Bifröst á sér þrjú grunngildi, sem eru frumkvæði, ábyrgð og samvinna og allt starf skólans miðast við að leggja rækt við þessi gildi. Ég hef rætt um metnaðinn sem er meðal bestu mannsins dyggða og sannur Bifrestingur er þeirri dyggð prýddur. Og við tengjum metnaðinn við frumkvæði einstaklingsins. Við viljum mennta fólk til forystu í atvinnulífinu og samfélaginu. Bifrestingar vilja láta til sín taka og skilja eitthvað eftir sig. Frumkvæði er okkar gildi vegna þess að útskrifaðir Bifrestingar eiga að geta tekið málin í eigin hendur þegar þeir fá ekki allt upp í hendurnar frá öðrum. Íslendingar þurfa á slíku fólki að halda“. 

 

Metnaður dyggð, græðgin löstur

Vilhjálmur sagði mikilvægt að þekkja muninn á metnaði og græðgi, meðan metnaðurinn er dyggð er græðgin löstur. „Hversu oft höfum við ekki séð besta fólk verða græðginni að bráð?  Taka áhættu umfram eigin getu og stofna sjálfum sér og fjölskyldu sinni í hættu. Jafnvel öllu samfélaginu. Græðgin er ekki nýtt fyrirbæri, hvorki í Íslandssögunni né í mannkynssögunni. Þessi löstur er samofinn mannseðlinu og við getum þess vegna endurritað mannkynssöguna undir yfirskriftinni: „Frá hruni til hruns.“ Og sjálfsagt er líka hægt að búa til framtíðarskáldsögur um sama efni.“

 

Samvinna er lykillinn

Vilhjálmur nefndi að samvinnan væri mikilvæg til að árangri. „Háskólinn á Bifröst er reistur á grunni samvinnuhugsjónarinnar og það er okkar arfleifð að varðveita hana og halda á lofti.  Ekkert gerist í nokkru samfélagi án samvinnu. Samvinnan er mikilvæg í öllum fyrirtækjum og stofnunum og samfélaginu öllu. Fólk er hvarvetna að vinna saman að verkefnum þar sem það þarf að gefa af sér og setja líka traust sitt á aðra. Í misserisverkefnum hér á Bifröst er leitast við að efla samvinnugetu nemendanna. Þar eru samvinnan og frumkvæðið leiðin til árangurs. Eftir því sem samvinnan en þéttari á milli aðila eru meiri líkur á góðum árangri.“ 

 

Háskóli í sókn

Að síðustu vék Vilhjálmur að þeim sóknaraðgerðum sem ráðist hefur verið í af stjórnendum skólans. Skólagjöld í Háskólagátt voru felld niður sem olli því að umsóknafjöldi margfaldaðist á við það sem hefur verið. Nýjar námslínur í bæði grunn- og meistaranámi voru settar á fót og hafa hlotið góðar viðtökur og sýnileg er veruleg fjölgun nemenda næsta haust. Þá hefur verið, eins og sagt var frá í síðasta Skessuhorni, opnuð sýning um íslenskt atvinnulíf þar sem verið er að draga fram hvaða verðmæti fólkið í íslenskum fyrirtækjum er að skapa.  Næsta haust mun skólinn skipuleggja allt nám í lotukennslu og kenna í sama rennsli kúrsana í staðnámi og fjarnámi. Hefðbundir fyrirlestrar fara úr tímum sem þá verða í staðnáminu notaðir til verkefnavinnu og umræðna. Bifröst er líka að fikra sig inn í tækni sem gerir fjarnemum kleift að fylgjast með tímum ef það á við. Bæði með fjarfundabúnaði og snertiskjám sem eiga að leysa hefðbundnar skólatöflur af hólmi. Umsóknir eru framúr vonum en hátt í 500 umsóknir um skólavist næsta haust eru nú þegar komnar, en umsóknarfrestur rennur út 15. júní.

Vilhjálmur óskaði útskriftarnemum til hamingju með áfangann hvatti nemendur til að leggja rækt við Bifrastargildin. Einnig þakkaði hann öllum þeim sem lögðu sitt af mörkum til samfélagsins í Norðurárdalnum, nemendum og starfsfólki skólans, hollvinum, fulltrúaráði og stjórn.

 

Verðlaun og útskriftarræður

Útskriftarverðlaun hlutu Sigþór Árnason á Viðskiptasviði, Júlía Guðmundsdóttir á Lögfræðisviði og Stella Sif Jónsdóttir á Félagsvísindasviði og Svanberg Halldórsson í Háskólagátt. Davíð Þór Sigurðarson hlaut einnig verðlaun fyrir hæstu einkunn í meistaranámi. Að auki fengu eftirfarandi þrír nemendur felld niður skólagjöld á haustönn í tilefni af framúrskarandi námsárangri: Elva Pétursdóttir á Viðskiptasviði, Lilja Björg Ágústsdóttir á Lögfræðisviði og Tjörvi Schiöth á Félagsvísindasviði.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is