18. júní. 2014 09:01
Norðurálsmótið, eitt stærsta pollamót landsins í knattspyrnu, fer fram á Akranesi um næstu helgi. Af því tilefni fylgir 16 síðna sérblað með Skessuhorni sem kom út í dag. Blaðinu verður dreift til gestanna á Akranesi um helgina, en áætlað er að um fjögur til fimm þúsund manns bætist við íbúafjöldann þessa þrjá daga sem mótið stendur yfir. Í sérblaðinu er m.a. að finna praktískar upplýsingar fyrir mótsgesti, rætt við forsvarsmenn mótsins og þjálfara í Knattspyrnufélagi ÍA. Einnig er rætt við Sigurð Jónsson knattspyrnukappa sem kominn er heim og byrjaður að starfa fyrir sitt gamla uppeldisfélag.