18. júní. 2014 10:01
Ægir, varðskip Landhelgisgæslunnar, siglir nú milli hafna við Faxaflóa og Breiðafjörð og skiptir út sex gömlum ljósduflum, eða baujum, við ströndina. Þannig kom Ægir með Vesturboðann og Ólafsboðann á Breiðafirði að landi í Grundarfirði fyrir helgina. Einnig var skipt um bauju númer ellefu vestan við Akranes og komið með þá gömlu að bryggju á fimmtudaginn. Auk þess var skipt út tveimur ljósduflum í Hvalfirði og einu í Kópavogi. Ákveðið hefur verið að bauja númer ellefu, sem var við Akranes, verði komið fyrir við vitana á Breið til minningar um mikilvægi þessara bauja á árum áður, en þær eru yfir 60 ára gamlar. Nú þegar sækir mikill fjöldi ferðamanna vitana og er talið að baujan muni auka aðdráttarafl svæðisins.
Áður fyrr var gasljós á þessum baujum en var breytt yfir í sólarrafhlöður fyrir nokkrum árum. Gömlu legufærin verða notuð áfram að hluta sem og steinninn sem heldur duflunum á sínum stað en hann vegur um 4 tonn. Öll legufærin verða tekin upp og yfirfarin auk þess sem skipt er út keðju þar sem þörf krefur. Nýju duflin sem Landhelgisgæslan kemur fyrir í staðinn kallast stangardufl, en þau eru gerð úr plasti, eru 10-11 metrar að lengd og vega 500 kíló. Tveir starfsmenn frá siglingasviði Vegagerðarinnar taka þátt í verkefninu ásamt starfsmönnum Landhelgisgæslunnar.
Lesa má nánar um hlutverk gömlu baujanna í Skessuhorni sem kom út í dag.