18. júní. 2014 01:01
Hin árlega Jökulmíla fór fram síðasta laugardag á Snæfellsnesi. Hjólreiðakeppnin var haldin í samvinnu Hjólamanna og heimamanna. Ræst var út frá Grundarfirði og hjólaður hringur um Snæfellsnes, fyrst vestur fyrir jökulinn en síðan til baka um Vatnaleið. Hringurinn er 161 kílómetra langur, eða nákvæmlega 100 mílur þar sem Jökulmílan er sett upp að erlendri fyrirmynd sem nefnist Aldarskeið og er vinsæll hjólreiðaviðburður víða um heim. „Um 90 manns tóku þátt í Jökulmílunni, auk þess sem um 80 keppendur hjóluðu hálfa Jökulmílu. Það voru því um 170 manns sem kláruðu þetta árið sem er aukning um næstum hundrað manns frá því í fyrra. Þá tóku 77 manns þátt og við stefndum á að ná fjölda keppenda í 100 núna. Það gekk heldur betur eftir,“ segir María Sæmundsdóttir keppnisstjóri. Þá var börnum einnig boðið að taka þátt í svokölluðum Míluspretti og tóku 13 börn þátt.
Hjólreiðamennirnir fengu fínasta veður á laugardaginn. „Veðrið var þurrt en keppendur lentu í nokkrum mótvindi á leiðinni. Þetta tókst allt ótrúlega vel og gekk alveg stóráfallalaust fyrir sig. Við áttum í mjög góðu samstarfi við heimamenn og það ber að þakka. Án þess er erfitt að halda svona keppni,“ segir María að lokum.
Úrslit Jökulmílunnar má finna á: www.thriko.is