17. júní. 2014 05:38
Nýtt og endurbætt Akratorg á Akranesi var formlega vígt í dag við upphaf hátíðarhalda á 17. júní. Það var Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri sem klippti á borða og í sömu andrá tók gosbrunnur í torginu að senda vatnsbunur upp í loftið. Mikill mannfjöldi kom saman á torginu í tilefni dagsins. Í kjölfar vígslunnar hófst hátiðardagskrá á torginu. Í sama mund og hátíðin var sett byrjaði að rigna þannig að segja má að algengt þjóðhátíðarveður hafi verið á Skaganum. Milt og hlýtt var í veðri. Inni í Landsbankahúsinu við Akratorg var fyrsti matar- og antikmarkaður sumarsins, en markaðir verða framvegis á laugardögum í sumar.