19. júní. 2014 09:01
Valinn hefur verið tólf manna landsliðshópur kvenna í körfuknattleik sem keppa mun í Evrópukeppni smáþjóða í Austurríki í júlímánuði. Fjórir af leikmönnunum koma frá Vesturlandi. Úr hópi Íslandsmeistara Snæfells koma nöfnurnar Hildur Sigurðardóttir og Hildur Björg Kjartansdóttir. Gunnhildur Gunnarsdóttir sem spilar með Haukum var einnig valin í hópinn en hún hóf sinn körfuboltaferil í Stykkishólmi þar sem hún er fædd og uppalin. Þá er Sigrún Sjöfn Ámundadóttir úr KR einnig í landsliðshópnum en hún er frá Borgarnesi. Í 16 manna landsliðshópnum var einn Snæfellingur í viðbót, Helga Hjördís Björgvinsdóttir, en hún komst ekki í lokahópinn. Hildur Sigurðardóttir er langleikreyndasti leikmaður landsliðsins með 73 landsleiki, Sigrún Sjöfn hefur leikið 24, Gunnhildur á sjö leiki að baki og Hildur Björg þrjá. Evrópukeppnin hefst 14. júlí næstkomandi en áður en hún fer fram mun landsliðið eiga tvo æfingaleiki við Dani og fer annar þeirra fram í Stykkishólmi 10. júlí. Hinn leikurinn verður leikinn á Ásvöllum deginum áður, 9. júlí.