20. júní. 2014 11:01
Fjölbrautaskóli Snæfellinga tók til starfa haustið 2004 og hefur því lokið sínu tíunda starfsári. Eins og nýverið var greint frá í Skessuhorni útskrifuðust 23 nemendur frá skólanum í vor og fjöldi útskrifaðra nemenda er þá kominn yfir 240. Á næstu haustönn er hugmyndin að minnast þessara tímamóta með margvíslegum hætti. „Eitt af því sem boðið verður upp á í september er að bæði einstaklingar sem og hópar komi í heimsókn á skólatíma og fylgist með og fái kynningu á skólastarfinu. Þeir sem vilja þekkjast þetta boð eru beðnir um að hafa samband við skólann og við finnum heppilegan tíma fyrir heimsókn. Snemma í október verður síðan boðið til fagnaðar þar sem velunnarar skólans, fyrrverandi og núverandi nemendur og starfsfólk kemur saman til þess að minnast þessara tímamóta,“ segir í tilkynningu frá FSN.
„Ein þeirra hugmynda sem skólastefna FSN byggir á er verkefnamiðað nám, leiðsagnarmat og nýting upplýsingatækni í víðum skilningi. Skólinn er með framhaldsdeild á Patreksfirði ætluð nemendum af sunnanverðum Vestfjörðum og hefur hún verið starfrækt síðan 2008. Einnig er boðið upp á dreif- og fjarnám frá Fjölbrautaskóla Snæfellinga í samvinnu við tíu framhaldsskóla sem auglýsa undir merkjum Fjarmenntaskólans. Það er ekki aðeins að kennsluhættir skólans séu fjölbreyttir heldur er nemendahópurinn líka mjög fjölbreyttur. Við útskrift nú í maí flutti nýstúdent ræðu þar sem hann m.a. lýsti upplifun sinni af því að vera fjarnemandi frá FSN, búandi í Reykjanesbæ. Við útskriftina hitti þessi nemandi í fyrsta skipti marga af þeim kennurum sem hann hefur numið hjá. FSN er framsækinn framhaldsskóli og við sem þar störfum erum full bjartsýni á framhaldið þar sem við teljum okkur finna að við njótum velvildar og stuðnings frá því samfélagi sem við störfum í.“