18. júní. 2014 04:01
Sauðafellshlaupið í Dölum fer fram laugardaginn 21. júní og hefst klukkan 14. Hlaupið verður frá Erpsstöðum eftir þjóðvegi 60 að Fellsenda og þar farið uppá Sauðafellið og hlaupið eftir því endilöngu og niður hjá bænum Sauðafelli og aftur inná veg 60. Hlaupinu lýkur svo á Erpsstöðum. Leiðin er 12 kílómetra löng. „Þeir sem ekki treysta sér til að hlaupa upp á fellið geta valið að hlaupa hringinn um fellið og er hann um 15 km. Boðið verður uppá barnapössun meðan á hlaupinu stendur og er þátttökugjald kr. 1000,“ segir í tilkynningu. Eftir hlaupið þegar fólk er búið að kasta mæðinni og farið að anda eðlilega, verður kveikt uppí grilli og borðað saman. Um kvöldið verður síðan smá uppskeruhátíð eftir daginn þar sem slegið verður á létta strengi og Haraldur Reynisson mun taka upp gítarinn. Hægt verður að stíga lítinn og léttan dans á nýja pallinum við Rjómabúið Erpsstaði, ef áhugi verður fyrir því. Sjá má nánar um viðburðinn á Fésbók undir, Sauðafellshlaupið 2014. Þar er æskilegt að tilkynna þátttöku.