23. júní. 2014 06:01
Klukkan tvö sunnudaginn 29. júní nk. býður leikhúsið Frystiklefinn í Rifi upp á hátíðardagskrá. Tilefnið er að Árni Kristjánsson, einn þriggja starfsmanna Frystiklefans, vann Grímuna fyrir útvarpsverk ársins. Frystiklefinn er leikhús og menningarmiðstöð í Rifi á Snæfellsnesi, en í Frystiklefanum rúmast fleiri gestir en búa í bænum.
Kári Viðarsson leikhússtjóri er að vonum stoltur af Árna: „Okkur í Frystiklefanum fannst það tilvalið að kynna verkið hans Árna almennilega fyrir bæjarbúum og öðrum sem hafa áhuga. Söngur hrafnanna fjallar um Davíð Stefánsson frá Fagraskógi og við bjóðum fólki í leikhúsið þar sem hægt verður að hlusta á verkið og fá kaffi og vöfflur. Dagskráin hefst stundvíslega kl. 14 en einnig verða sönglög og kynning á Davíð Stefánssyni. Aðgangur er ókeypis og dagskránni lýkur áður en næsti fótboltaleikur hefst í sjónvarpinu!“
Árni starfar við miðasölu og tæknikeyrslu í Frystiklefanum en þess á milli vinnur hann að næsta leikriti sem er styrkt af Menningarsjóði tengdum nafni Jóhannesar Nordal. „Það er frábært að hafa fengið vinnustofu hér í Frystiklefanum til að reita hárið yfir næsta verki,“ segir Árni glaður í bragði. „Það tók langan tíma að skrifa Söng hrafnanna og rannsóknarvinnan var mikil. Ég hef fjallað um Davíð og þetta verk mitt á kynningum í Róm, Reykjavík og á Akureyri. Ég vona að sem flestir mæti til okkar í kaffi og vöfflur hér í Rifi.“
Nánari dagskrá Frystiklefans má finna á heimasíðu leikhússins þar sem fjöldi viðburða á ensku og íslensku verða haldnir þar yfir sumartíðina.