20. júní. 2014 10:55
Nýkjörnir bæjarfulltrúar á Akranesi héldu sinn fyrsta bæjarstjórnarfund í gær. Dagsetning fundarins var vel við hæfi þar sem gærdagurinn var alþjóðlegi kvennadagurinn, en meirihluti fulltrúa sem sitja nú í bæjarstjórn á Akranesi eru konur.
Ingibjörg Pálmadóttir, aldursforseti setti fundinn og stýrði kjöri á forseta bæjarstjórnar. Var Sigríður Indriðadóttir kjörin forseti bæjarstjórnar með öllum greiddum atkvæðum. Það má með sanni segja að embættið sé Sigríði í blóð borið en langafi hennar, Ólafur B. Björnsson var fyrsti forseti bæjarstjórnar árið 1942 og afi hennar, Valdimar Indriðason var einnig forseti bæjarstjórnar á árunum 1976 til 1984. Sigríður stýrði svo fundinum sem forseti og las upp tillögur að kjöri í helstu nefndir og ráð.
Á fundinum var samþykkt að Regína Ásvaldsdóttir yrði áfram sem bæjarstjóri Akraneskaupstaðar og var Regína ráðin til að gegna embættinu næstu fjögur árin. Ólafur Adolfsson var kjörinn formaður bæjarráðs, Einar Brandsson var kjörinn formaður framkvæmdaráðs og skipulags-og umhverfisnefndar, Sigríður Indriðadóttir var kjörin formaður fjölskylduráðs, Valdís Eyjólfsdóttir var kjörinn fulltrúi Akraness í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur og Ólafur Adolfsson var kjörinn fulltrúi í stjórn Faxaflóahafna. Þá var Ingþór Bergmann Þórhallsson kjörinn formaður menningarmálanefndar.