22. júní. 2014 04:31
Með sigri á Leikni, sem nýlokið er á Akranesvelli, skutust Skagamenn á topp 1. deildar karla í knattspyrnu. Um hörkuleik var að ræða þar sem Leiknismenn voru marki yfir í hálfleik, en Skagamenn svöruðu með tveimur mörkum í seinni hálfleiknum og sigruðu 2:1. ÍA er þar með kominn með 15 stig á topp 1. deildar með jafnmörg stig og Víkingur Ólafsvík sem sigraði Tindastól 1:0 Ólafsvíkurvelli í gær. Leiknir er í þriðja sætinu í 1. deildinni með 14 stig. Þetta var fyrsta tap Leiknis í sumar og fyrir leikinn höfðu Breiðhyltingar aðeins fengið á sig eitt mark.
Skagamenn voru sterkari í fyrri hálfleiknum og fengu fjögur góð færi til að skora en í öll skiptin var það Eyjólfur Tómasson góður markvörður Leiknismanna sem sá við sóknarmönnum ÍA. Einkum var það á tíu mínútna kafla fyrir miðbik hálfleiksins sem Skagamark virtist liggja í loftinu. Þess í stað voru það Leiknismenn sem skoruðu. Það gerðist á 25. mínútu þegar Sindri Björnsson fékk boltann dauðafrír í teignum upp úr aukaspyrnu og skoraði örugglega. Þetta var eina færi Leiknis í fyrri hálfleik utan stangarskot undir lok hálfleiksins.
Skagamenn byrjuðu seinni hálfleikinn af krafti og uppskáru vítaspyrnu á 54. mínútu þegar varnarmaður Leiknis handlék boltann í teignum. Garðar Gunnlaugsson sendi boltann efst í hægra hornið og jafnaði metin fyrir ÍA. Skagamenn gerðu sig líklega að láta kné fylgja kviði og einkum var það Garðar sem skapaði hættu en Jón Vilhelm átti einnig þrumuskot í slána á 57. mínútu. Leiknismenn komu svo meira inn í leikinn og virtust allt eins líklegir að skora. Það var svo á 87. mínútu sem Skagamenn skoruðu sigurmarkið og þá rétt áður hafði Eyjólfur í marki Leiknis varið vel aukaspyrnu Jóns Vilhelms. Upp úr hornspyrnu frá því atviki var Garðar Gunnlaugsson mættur á markteigshornið og skallaði boltann í markið, sjöunda mark Garðars í deildinni í sumar. Síðustu mínúturnar lá svo á heimamönnum en þeir stóðust síðustu áhlaup Leiknismanna og fögnuðu sigri. Sjö umferðum er þá lokið í 1. deildinni og næst fara Skagamenn vestur á Ísafjörð nk. laugardag og leika þá gegn BÍ/Bolungavík.