23. júní. 2014 09:59
Antonio Jose Espinosa Mossi, leikmaður Víkings í Ólafsvík, skoraði eina mark sinna manna gegn Tindastóli í sigri þeirra á Ólafsvíkurvelli á laugardaginn. Víkingsmenn hafa verið á góðu skriði í fyrstu deildinni en sömu sögu er ekki að segja af Skagfirðingunum í Tindastóli sem töpuðu síðasta leik 5-0. Leikurinn á laugardaginn var þó töluvert jafnari en búist var við fyrir leik. Bæði lið sýndu mikinn karakter í fyrri hálfleik en ekkert mark var þó skorað. Eina mark leiksins kom í seinni hálfleik þegar Mossi skoraði úr vítaspyrnu á 75. mínútu og nægði það heimaliðinu til sigurs.
Víkingur Ó. komst með sigrinum í efsta sæti fyrstu deildarinnar en situr nú í öðru sæti eftir að Skagamenn unnu Leikni í gær. Einungis markamunur skilur Vesturlandsliðin að því bæði eru með 15 stig.