23. júní. 2014 10:09
Lögmannsstofan LEX hefur gefið út 70 síðna leiðarvísi fyrir ferðaþjónustuna um þau lögfræðilegu atriði sem þarf að huga að við stofnun og rekstur ferðaþjónustufyrirtækja. Ritinu er dreift ókeypis til ferðaþjónustufyrirtækja um allt land, þar á meðal þeirra rúmlega 150 fyrirtækja í greininni sem starfa á Vesturlandi. „Það hefur verið mikill vöxtur í ferðaþjónustunni á Vesturlandi,“ segir Helgi Jóhannesson lögmaður hjá LEX, ritstjóri leiðarvísisins. „Fyrir tíu árum voru 45 gististaðir á Vesturlandi öllu, en 2013 voru þeir 65 á skrá Hagstofunnar. Ferðaþjónustufyrirtæki með leyfi frá Ferðamálastofu voru 75 á Vesturlandi í fyrra og til viðbótar koma svo bílaleigur og fólksflutningafyrirtæki á svæðinu.
Þegar svo mikill vöxtur á sér stað á skömmum tíma er ekki sjálfgefið að allir hafi nægilega yfirsýn um þau fjölmörgu lagalegu álitamál sem geta komið upp við stofnun og rekstur fyrirtækjanna. Snertifletir ferðaþjónustunnar við yfirvöld, lög og reglur eru margir og ekki allir jafn augljósir. Við hjá LEX ákváðum því að leggja okkar af mörkum til að vísa veginn og gefa ferðaþjónustunni afraksturinn,“ segir Helgi.
Í leiðarvísinum er farið ítarlega yfir leyfisöflun, stofnun einkahlutafélaga, ábyrgð, tryggingamál, skattamál, samningagerð, samskipti við yfirvöld og fleira. Leiðarvísirinn er ekki tæmandi leiðbeiningarrit, en ætti að gefa góða yfirsýn. Eintök liggja frammi hjá sýslumönnum og dómstólum og einnig er leiðarvísirinn aðgengilegur á vefsíðu LEX svo og á vefsíðu SAF, Samtaka ferðaþjónustunnar. „Þessi leiðarvísir okkar hjá LEX er jafnt ætlaður stjórnendum í nýjum sem rótgrónum fyrirtækjum, til að hjálpa þeim að átta sig á því hvort þeir séu með allt á hreinu í lagalegu tilliti, eða hvort þeir þurfa að bæta úr í einstaka atriðum,“ segir Helgi Jóhannesson.