24. júní. 2014 09:01
Þessa dagana er að hefjast niðurrekstur á stálþili til lengingar Tangabakka við Grundartangahöfn. Þetta er stærsta verkefnið sem unnið er að á Grundartanga um þessar mundir. Þessi áfangi við uppbyggingu Grundartangahafnar nær til 120 metra lengingar Tangabakka og er áætlaður kostnaður við verkið um 250 milljónir. Það er fyrirtækið Ísar sem fékk og vinnur verkið samkvæmt útboði. Guðmundur Eiríksson forstöðumaður tæknideildar Faxaflóahafnar segir að áætlað sé að verkinu ljúki að mestu á þessu ári en þó gæti frágangur yfirborðs þurft að bíða til næsta vors. Verkið var undirbúið í vor þegar Ístak gerði vinnugarð vegna bakkagerðar. Í tengslum við það verk fór fram efnisvinnsla úr námusvæði á vesturhluta svæðis Grundartangahafnar þar sem lóðir og götur eru undirbúnar samhliða öðrum framkvæmdum á svæðinu.