24. júní. 2014 04:56
Bræðurnir Guðmundur og Trausti Sigvaldasynir hafa undanfarið verið í grenjavinnslu í Reykhólahreppi. Í samtali við vef Bæjarins besta, www.bb.is sagði Guðmundur að eitthvað óvenjulegt sé á seyði með tófuna á svæðinu. „Það er óhemja af hlaupadýrum, bæði geldum læðum og steggjum. Þetta er mjög óvanalegt á þessu svæði,“ segir Guðmundur sem búsettur er á Reykhólum. Þeir bræðurnir eru frá Hafrafelli í Reykhólasveit, en Trausti er búsettur á Álftanesi og kemur vestur til veiðanna. Þeir bræður leita á 164 þekktum grenjastæðum í Reykhólahreppi, en leitarsvæðið nær frá Gilsfjarðarbotni að Klettshálsi. Bræðurnir búast við að ef viðri vel muni grenjavinnslan klárast í næstu viku, en þegar rætt var við þá voru þeir búnir að finna dýr á tveimur grenjum. Guðmundur leggur þó áherslu á það á vorin að ná dýrum sem næst æðarvörpum. Frá því í maí hafa þeir bræður náð 40 dýrum á þeim slóðum.