25. júní. 2014 09:01
Dagskrá Írskra daga á Akranesi er að mestu tilbúin að sögn Önnu Leif Elídóttur verkefnisstjóra hjá Akraneskaupstað. Hátíðin hefst fimmtudaginn 3. júlí með kraftakeppni og hálandaleikum og síðan verður þétt dagskrá þar til hátíðinni lýkur á sunnudeginum. „Ég á von á því að Regína bæjarstjóri verði hafin á loft af einhverjum sterkum karlmanni þegar hún setur hátíðina,“ segir Anna Leif, en aflraunakeppnin fer fram á Safnasvæðinu. Þar má búast við öllum sterkustu mönnum og konum landsins, en Hjalti Úrsus Árnason skipuleggur keppnina. Einnig verður komið upp hreystibraut fyrir krakkana.
Anna Leif segir að ýmislegt nýtt sé núna á dagskránni í bland við fasta liði á Írskum dögum. Til að mynda er stefnt á blindragöngu og þá verður nýstárlegt framboð af mat á matar-og nytjamarkaðinum á laugardag, svo sem pipraður harðfiskur og viskílegið lambakjöt. Götugrill verða að venju á föstudagskvöld. Tónleikar á Akratorgi þar sem Villi og Sveppi verða mættir ásamt Rokkabillýbandinu, Björgvin Halldórs, Siggu Beinteins og Matta Matt. Göngugata verður niður á Akratorg og stílað á að gera torginu hátt undir höfði á Írskum dögum, að sögn Önnu Leif. Tívolí verður í bænum og markaðs- og götustemning á laugardag, ásamt brekkusöng og Lopapeysu um kvöldið að vanda.