25. júní. 2014 10:30
Skagastúlkur og Afturelding mætust í sjöttu umferð Pepsí-deildar kvenna í gærkvöldi og endaði leikurinn 4-1 fyrir Aftureldingu. Leikið var á N1-vellinum í Mosfellsbæ. Þetta var jafnframt fyrsti leikur Skagakvenna undir stjórn Þórðar Þórðarsonar sem tók nýlega við liðinu í forföllum Magneu Guðlaugsdóttur. Stúlkurnar í Aftureldingu voru ekki lengi að komast yfir á heimavelli en strax á sjöttu mínútu skoruðu þær fyrsta mark leiksins. Næsta mark kom tuttugu mínútum síðar og Mosfellingar komnar með tveggja marka forystu. Þær skoruðu svo þriðja mark leikins áður en flautað var til hálfleiks.
Skagakonur sem létu hreinlega valta fyrir sig í fyrri hálfleiknum mættu mun beittari til leiks í þeim síðari. Sóttu þær hart að marki Aftureldingar og á 53. mínútu skoraði Guðrún Karítas Jónsdóttir mark fyrir Skagaliðið. Endurkoma Skagakvenna var þó skammlíf því á 56. mínútu fékk Ingunn Dögg Eiríksdóttir beint rautt spjald eftir glæfralega tæklingu og Skagastúlkur því einum leikmanni færri það sem eftir lifði leiks. Aftureldingarstúlkur kláruðu svo leikinn endanlega á lokamínútunni með marki og lokatölur því 4-1 fyrir Aftureldingu.
Næsti leikur Skagakvenna er á þriðjudaginn 1. júlí en þá taka þær gulklæddu á móti ÍBV á Akranesvelli og hefst sá leikur klukkan 17:30.