25. júní. 2014 03:01
Franski listamaðurinn Francois Jouas Poutrel er nú staddur hér á landi til að teikna myndir af vitum á Vesturlandi. Myndirnar teiknar hann með bambus pennum og bleki og verða þær til sýnis í Sögumiðstöðinni í Grundarfirði næsta mánuðinn. Francois er vel þekktur listamaður í heimalandi sínu en hann var þar vitavörður í 35 ár áður en hann lét af störfum árið 2008. Francois kemur frá bænum Paimpol í Frakklandi sem er vinbær Grundarfjarðarbæjar en koma Francois og sýningin á verkum hans er samstarfsverkefni Franska sendiráðsins á Íslandi, Grundarfjarðarbæjar og Alliance francaise samtakanna á Íslandi. Þetta er þó ekki fyrsta heimsókn Francois til Íslands en hann kom einnig hingað til lands í mars á þessu ári. Þá sýndi hann verk sín í Norræna húsinu auk þess sem hann lagði grunninn að þeim teikningum sem eru til sýnis í Sögumiðstöðinni í Grundarfriði. Alls eru 20 teikningar á sýningunni í Grundarfirði, tíu eru af vitum á Vesturlandi og aðrar tíu af vitum frá heimaslóðum Francois í Frakklandi. Sýningin hófst föstudaginn 20. júní og stendur til 20. júlí.
Nánar er rætt við Francois Jouas Poutrel í Skessuhorni sem kom út í dag.